Stúkan tekur á sig mynd

Nýr aðalvöllur og stúka á Selfossvelli verða vígð á fimmtudag þegar Selfoss tekur á móti Keflavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Fyrsti áfangi stúkunnar verður tekinn í notkun á fimmtudaginn en hún tekur 730 manns í sæti. Þá verður aðalvöllurinn formlega opnaður en honum var reynsluekið á Olísmótinu á dögunum.

Starfsmenn Smíðanda hófu að festa sætin í stúkuna í morgun og voru rúmlega hálfnaðir við það verk síðdegis í dag. Þegar sætin eru komin í á eftir að setja upp handrið og ganga frá umhverfis stúkuna til þess að fyrsta áfanga teljist lokið.

Búningsklefar og önnur aðstaða innanhúss í stúkunni verður ekki frágenginn á þessu ári og það sama má segja um aðstöðu fjölmiðla og vallarstarfsmanna efst í stúkunni.