Stúdíó Stund opnar í dag

Ný ljósmyndastofa, Stúdíó Stund, opnaði að Austurveg 38 á Selfossi í dag. Stofan leggur áherslu á að taka fjölskyldumyndir – fyrir stóru stundirnar í lífinu.

Stofnendur Stúdíó Stundar eru Laufey Ósk Magnúsdóttir ljósmyndari, Kolbrún Káradóttir og Guðmundur Kristinn Sigurðsson.

“Við leggjum áherslu á persónulega og þægilega þjónustu sem hentar öllum. Við tökum alls konar myndir en stíll stofunnar er fremur rómantískur og afslappaður,” sagði Laufey í samtali við sunnlenska.is.

Stúdíó Stund leggur áherslu á að taka fjölskyldumyndir í öllum sínum fjölbreytileika og þá bæði við einhver tilefni eins og fermingar, stúdent og brúðkaup en einnig svipmyndir úr hinu almenna lífshlaupi.

Laufey Ósk er löggiltur ljósmyndari, fædd og uppalin á Selfossi. Hún hóf nám í ljósmyndun í Tækniskólanum um áramót 2008 og brautskráðist í fyrravor. Eftir það komst hún á starfssamning hjá Fríði Eggertsdóttur á Svipmyndum og lauk sveinsprófi fyrr á þessu ári.

“Áhugi minn á fólki og ástríða fyrir fallegum myndum endurspeglast í minni vinnu. Það skemmtilegasta sem ég geri er að kynnast fólki og gera það svo ánægt með fallegum myndum. Með jákvæðni og hógværa gleði að leiðarljósi hjálpumst við að við að hressa fermingarbarnið við, skemmta litla prinsinum eða prinsessunni, fá pabbann til að brosa eðlilega, mömmuna til að anda djúpt og fanga augnablikið þegar systkinin eru bestu vinir í tvær mínútur. Margbreytileiki mannsins er minn innblástur og um leið áskorun,” sagði Laufey að lokum.

Fyrri greinHvar var Þorsteinn? – I
Næsta greinStyrktu vökudeildina í stað brúðargjafa