Stúdentspróf í listum á námsskrá

Ný námskrá í Fjölbrautaskóla Suðurlands býður upp á aukið val fyrir nemendur og hlutfall kjarnagreina verður lægra frá næsta hausti.

Nám til stúdentsprófs styttist og verður mögulegt að útskrifast frá FSu af þriggja ára stúdentsbraut – listalínu.

Myndlistarkennsla í FSu þróaðist frá fyrstu árum úr því að vera eingöngu kennsla í grunnatriðum myndlistar yfir í kennslu í alls konar grafíkaðferðum, þrívíddarmótun ýmiskonar og vinnu með leir, mósaík og fleira. Í framhaldi var stofnuð listnámsbraut en sú braut var til tveggja ára og samanstóð af þremur greinum; myndlist, textíl og kvikmyndasögu.

Ýmislegt spennandi verður í boði í myndlistinni næsta haust s.s. hefðbundnir grunnáfangar í teikningu og lita- og formfræði, en farið dýpra í þá en áður. Þar að auki verður í fyrsta skipti kennd grafísk hönnun við skólann þar sem farið verður vel í grunnþætti þess fags. Þá verður áfangi í veggjalist kenndur á næstu önn.

Sveitarfélagið Árborg gaf leyfi til þess að nýta vegg er snýr að bílastæði FSu og fylgir leyfinu ákveðið skilyrði um þema: Bókabæirnir á Suðurlandi.

Á næstu önnum verða svo kynntir til sögunnar nýir áfangar, bæði framhalds og sértækir, sem búið er að semja áfangalýsingu að.

Fyrri greinSelfoss vann stigakeppnina
Næsta greinFræðslunetið hlýtur tvo Evrópustyrki