Stuð á Stokkseyrarbryggju

Það var líf og fjör og frábær stemmning í góða veðrinu á bryggjunni á Stokkseyri í kvöld þegar hápunktur Bryggjuhátíðarinnar fór fram.

Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, setti hátíðina og Björgvin Franz skemmti ungum og öldnum eins og honum einum er lagið. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar lék listir sínar yfir bryggjunni og síðan var komið að varðeldi og bryggjusöng með Árna Johnsen sem lauk með blysum og reyk.

Eftir fjölskylduskemmtunina var bændaball á bryggjunni með hljómsveitinni Granít frá Vík í Mýrdal. Á Draugabarnum er svo stórdansleikur í nótt með hljómsveitinni Karma.

Bryggjuhátíðin heldur áfram á morgun með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.