Strokufangar fundust á Þingvöllum

Tveir strokufangar sem struku frá fangelsinu á Kvíabryggju á Snæfellsnesi í gærkvöldi voru handteknir á Þingvöllum í hádeginu í dag.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, staðfesti í hádegisfréttum RÚV að lögreglan á Suðurlandi hefði handtekið mennina.

Lögreglunni barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir á Þingvöllum um klukkan hálf tólf. Hún fór í framhaldinu á staðinn en í samtali við fréttastofu RÚV vildi lögreglan ekki gefa nákvæmlega upp hvar mennirnir voru handteknir.

Einar Á. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, segir í samtali við RÚV að innbrotaboð hafi borist frá sumarbústað við Þingvelli. Gestur varð var við boðið og lét vita.

„Þeir voru kurteisir og gáfu sig fram. Þjóðgarðsverðir og lögregla voru komnir á staðinn á svipuðum tíma,“ segir Einar og bætir við að mennirnir hafi verið hinir prúðustu. „Þetta gekk allt vel.“

Fram kom í fréttum í morgun að mennirnir, sem eru um tvítugt, væru ekki taldir hættulegir en þeir höfðu fengið dóma fyrir neyslubrot og auðgunarbrot.

Mennirnir voru fluttir í fangageymslur lögreglunnar á Selfossi og verða í framhaldi af því vistaðir í fangelsinu að Litla Hrauni.

UPPFÆRT KL. 14:18

Fyrri greinAusturvegurinn lokaður í dag
Næsta greinSólrún Björk sýnir í Listagjánni