Strandhreinsun við Eyrarbakka á laugardag

Eyrarbakki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Laugardaginn 5. september er Norræni strandhreinsunardagurinn en þá verður Eyrarbakkafjara gengin milli kl. 10 og 12 og hreinsuð.

Allir velkomnir að koma og að taka þátt í þessu verkefni sem er á vegum Nordic Coastal Clean-up (NCC). Mæting er kl 10 við höfnina á Eyrarbakka.

NCC er samstarfsverkefni félagasamtaka á Norðurlöndunum sem vinna að málefnum plastmengunar í höfum með hreinsun á strandlengju Norðurlandanna, gagnasöfnun, greiningu og hvatningu.

Verkefnið byrjaði árið 2017 þegar strandir voru hreinsaðar á öllum Norðurlöndum á Norræna strandhreinsideginum. Hann er venjulega haldinn hátíðlegur í maí ár hvert en sökum Covid-19 var deginum seinkað fram í september í ár.

Sjálfboðaliðar á vegum Veraldarvina og starfsfólk norrænu sendiráðana munu leiða strandhreinsunina við Eyrarbakka. Gætt verður allra sóttvarna og er fólk hvatt til þess að virða sóttvarnir eins og við á.

Fyrri greinHamar tapaði á Hornafirði
Næsta greinStóð fastur í sandi upp að mitti í nokkrar klukkustundir