Strandheimar fá sjötta Grænfánann

Ljósmynd/Aðsend

Nú á dögunum fékk leikskólinn Strandheimar á Eyrarbakka og Stokkseyri Grænfánann afhentan í 6. sinn fyrir góða frammistöðu í menntun til sjálfbærrar þróunar og fyrir að leggja sitt af mörkum til þess að efla og bæta umhverfismál innan skólans og í nærsamfélaginu.

Leikskólinn hefur tekið þátt í verkefninu Skóli á grænni grein frá árinu 2009, en það er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education og hefur Landvernd yfirumsjón með verkefninu hér á landi.

Skólar sem eru þátttakendur í verkefninu hérlendis skulu skila inn greinagerð til Landverndar á tveggja ára fresti sem inniheldur lýsingu á því hvernig unnið er að markmiðum í sjálfbærnimenntun og umhverfismálum innan skólans. Landvernd metur svo hvort settum markmiðum hefur verið náð og veitir í framhaldi skólunum viðurkenningu í formi Grænfánans. Skólarnir fá þá leyfi til að flagga fánanum næstu tvö árin og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða um heim sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.

Átthagar og vatn. Nemendur á Merkisteini á Eyrarbakka fundu þó nokkra vatnsbrunna á göngu
sinni um þorpið. Ljósmynd/Aðsend

Leiðir að markmiðum
Liður í Grænfánaverkefninu er að velja sér þema til að vinna eftir og hefur leikskólinn síðustu misseri lagt áherslu á þemun átthagar og vatn.

Af hverju átthagar?
„Þekking á nærumhverfinu eykur virðingu fyrir því og hvetur til bættrar umgengni. Einstaklingar sem umgangast og þekkja náttúrulegt landslag í sinni heimabyggð eru líklegri til að taka afstöðu með náttúrunni og þannig stuðla að vernd hennar.“ – Landvernd

Af hverju vatn?
„Flest tökum við vatni sem sjálfsögðum hlut og veltum lítið fyrir okkur þeim lífsgæðum sem felast í því að skrúfa frá krana og fá sér sopa af hreinu, ísköldu vatni. Á sama tíma er fólk annars staðar í heiminum sem þarf að ganga langar leiðir til að sækja vatn til heimilisins, sem jafnvel er ekki hreint. Það er því afar brýnt að vinna með vatn og gera nemendum grein fyrir mikilvægi þess að fara vel með vatnsauðlindina.“ – Landvernd

Markmið Strandheima út frá ofan töldum þemum voru eftirfarandi á tímabilinu:

  • Mikilvægi þess að spara vatnið eins og við getum.
  • Að þekkja vatnshringrásina.
  • Hvernig umgengni okkar við náttúru og umhverfi hefur áhrif á jörðina okkar.
  • Að nemendur fái að kynnast nærumhverfi leikskólans.
  • Að nemendur fræðist um fólk, staði og atburði sem tengjast þorpinu.

Leiðirnar voru nokkrar til þess að uppfylla markmiðin en eitt af því var að fara í vettvangsferð um Eyrarbakka og skoða vatnsbrunnana sem þar eru til staðar og fræðast þannig um sögu þorpsins í leiðinni. Einnig voru gerðar ýmsar tilraunir með vatn og prufuðum við meðal annars að taka með okkur lítinn snjókarl inn í vetur til að athuga hvað gerist þegar snjór dvelur í hlýju umhverfi – og hvað haldið þið?! Eftir nokkrar klukkustundir flutu steinaaugu og gulrótarnef snjókarlsins í vatni. Fleiri tilraunir með vatn voru gerðar og nýttum við nánasta umhverfi óspart til gönguferða.

Í leikskólanum er einnig reynt að sporna gegn matarsóun eftir fremsta megni og fá þakklátir hænubændur í þorpunum afgangs mat frá leikskólanum til að gefa hænum sínum og því fer sáralítið til spillis. Rusl er flokkað og farið er sparlega með pappír og annan efnivið. Matur er lagaður frá grunni og eins hafa verið gerðar tilraunir til ræktunar,
nú síðast með eplafræjum.

Nemendur á Bátakletti á Stokkseyri rækta plöntur úr eplafræjum. Ljósmynd/Aðsend

Afhending Grænfánans
Það fylgdi því mikil gleði þegar Ósk Kristinsdóttir, fulltrúi Landverndar, afhenti leikskólanum 6. Grænfánann á Vorhátíð leikskólans nú í júní. Birna Guðrún Jónsdóttir, leikskólastjóri, dró fánann að húni og sungu börnin Umhverfissáttmála Strandheima á meðan. Umhverfissáttmálinn hefur það að markmiði að börn, foreldrar og starfsfólk læri að vernda og bera virðingu fyrir heilsu sinni, náttúru og umhverfi, en leikskólinn er einnig Heilsueflandi leikskóli.

Umhverfissáttmáli Strandheima
Stefnan hér í leikskólanum er sem segir hér:
Göngum vel um náttúruna,
virðum bæði tré og runna,
svo dýr og börn á jörðu geta lengi leikið sér.
Matur, hreyfing skiptir máli fyrir okkur öll.
Hoppum, hlaupum, klifrum,
borðum matinn, biðjum;
að gæfa og gleði fylgi okkur, framtíðin er björt.

Lag: Gamli Nói. Texti: Ásgerður Tinna Jónsdóttir.

Leikskólinn Strandheimar vill nota tækifærið og óska öllum nærsveitungum sínum heilsuríks sumars með von og hvatningu um að þið fáið notið og skapað góðar stundir úti í náttúrunni.

– Flest það sem er gott fyrir okkur er gott fyrir umhverfið –

Kærleikskveðja,
nemendur og starfsfólk leikskólans Strandheima

Hægt er að fræðast nánar um starfið í Strandheimum á heimasíðu leikskólans.

Grænfáninn blaktir við hún á vorhátíð Strandheima í Brimveri á Eyrarbakka. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSæta nálgunarbanni vegna heimilisofbeldis
Næsta greinEyþór tekur við kvennaliði Selfoss