Strætóferðum fjölgar innan Árborgar

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt fjölgun ferða á leið 75 sem ekur milli Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar.

Breytingin tekur gildi mánudaginn 25. ágúst næstkomandi. Auk þess að fjölga ferðum er tímasetningum nokkurra ferða breytt lítillega til að mæta betur þörfum notenda.

Eftir breytinguna verða ferðir innan Árborgar tíu talsins alla virka daga, sjö ferðir á leið 75 og þrjár ferðir á leið 74. Með fjölgun ferða virka daga er verið að mæta þörfum notenda, einkum barna og ungmenna, til að komast á milli staða til tómstunda- og íþróttaiðkunar. Akstur á laugardögum verður í tilraunaskyni og verður reynslan metin um áramótin.

Breytingarnar verða ekki færðar inn í leiðakerfið á heimasíðu Strætó fyrr en vetraráætlun á Suðurlandi tekur gildi í september nk.

Tafla yfir áætlun á leið 75 er aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins og eru íbúar hvattir til að kynna sér hana.

Börn á grunnskólaaldri geta fengið sérstakt strætókort sem gildir innan sveitarfélagsins og geta þau þá ferðast án endurgjalds.

Fyrri greinSterkar vísbendingar um kvikuhreyfingu
Næsta greinBárðarbunga í beinni á netinu