Strætóferðir mögulega slegnar af

Sú hugmynd er uppi meðal bæjarstjórnarmeirihlutans í Árborg að hætta niðurgreiðslu til strætóferða milli Selfoss og Reykjavíkur.

„Það væri stórt skref aftur á bak,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, um hugmyndina en Árborg og Hveragerði greiða starfsemi Strætó niður í hlutfalli við íbúafjölda. Þannig borgar Hvera­gerðis­bær tíu milljónir króna nettó til rekstursins en Sveitarfélagið Árborg um fjörutíu milljónir árlega.

Bæjarfulltrúum D-listans í Árborg þykir upphæðin há, ekki síst útfrá skuldastöðu sveitar­félagsins. Ríkið greiðir svo sjö milljónir króna árlega samkvæmt samningi, byggðan á að um svokallaða sérleið var að ræða á meðan á rútuferðum stóð á þessari leið.

Aldís segir málið hafa verið óformlega rætt við sig og líti á að það sé á umræðustigi. Hún telur það óheppilegt, ekki síst í ljósi umræðu um vegatolla á Hellisheiði að ætla að slá af Strætóferðir, sem séu sífellt vin­sælli, ekki síst hjá námsmönnum. Hún segist skilja að skera þurfi niður en óttast afleiðingarnar gagnvart þessari starfsemi. „Ef við sláum af Strætó, þá er hætt við að erfitt verði að koma þeirri þjónustu aftur á.“