Stóru gasgrilli stolið

Nýlegu gasgrilli, Weber Genesis, var stolið frá sumarbústað í Tjarnarhólslaut sem er í landi Vaðness í Grímsnesi fyrr í mánuðinum.

Grillið er stórt, tveggja til þriggja manna tak. Þjófnaðurinn átti sér stað á tímabilinu 12. til 25. febrúar síðastliðinn. Þeir sem veitt geta upplýsingar um þjófnaðinn eru beðnir að hafa samband í síma lögreglu 480 1010.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi. Þar kemur einnig fram að átta umferðaróhöpp urðu í umdæminu í síðustu viku, án alvarlegra meiðsla.

Sex ökutæki voru tekin úr umferð vegna vanrækslu á ábyrgðartryggingu. Sekt við því broti er allt að 30 þúsund krónur. Sjö ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur og tveir fyrir ölvun við akstur.