Stórtjón í eldi hjá Flúðafiski

Eldur kom upp í húsnæði fiskvinnslu Flúðafisks í Borgarási á Flúðum um miðjan dag í dag. Mikill reykur var í húsinu sem er töluvert skemmt eftir eldinn.

Starfsmenn urðu varir við eldinn og forðuðu sér út. Allir komust þeir út ómeiddir og tóku síðan til við að hefta eldinn. “Slökkvistarfið gekk vel og starfsmenn fyrirtækisins höfðu staðið sig vel við að hefta eldinn áður en við komum á vettvang,” sagði Jóhann K. Marelsson, slökkviliðsstjóri á Flúðum, í samtali við sunnlenska.is.

Eldurinn kom upp í starfsmannaaðstöðu og var mikill reykur þar og sömuleiðis á skrifstofu og verkstæði. Vinnslusalur Flúðafisks er í sömu byggingu. “Það var lítilsháttar eldur í húsinu en talsverður reykur undan þakinu og þessi hluti hússins var fullur af reyk,” segir Jóhann.

“Þetta fór eins vel og það gat farið en það er ljóst að þarna hefur orðið stórtjón,” sagði Jóhann ennfremur. Slökkvistarf tók um það bil einn og hálfan tíma og var lokið uppúr klukkan fjögur.

Lögreglan á Selfossi rannsakar upptök eldsins.

Fyrri greinJón Daði búinn að skrifa undir
Næsta greinÓk á ljósastaur á Selfossi