Stórtjón fyrir litla deild

Tveimur rafgeymum hefur verið stolið úr beltagröfu sem stendur við motocrossbrautina í Hrísmýri á Selfossi. Þjófnaðurinn átti sér líklega stað aðfaranótt þriðjudags.

Motocrossdeild Umf. Selfoss er með gröfuna að láni og tjónið er líklega um 100 þúsund krónur og munar um minna fyrir litla íþróttadeild.

Grafan var síðast notuð á sumardaginn fyrsta en þegar átti að fara að nota hana í kvöld kom í ljós að geymarnir voru horfnir. Málið hefur verið kært til lögreglu.

„Þetta var ekki alveg það sem við óskuðum okkur í sumargjöf. Við leitum nú að þjófnum og biðjum alla sem einhverjar upplýsingar geta veitt að hafa samband við annaðhvort Júlla brautarstjóra í síma 896-7210 eða mig, í síma 695-0020,“ sagði Axel Sigurðsson, gjaldkeri motocrossdeildarinnar í samtali við sunnlenska.is.
Að sögn Axels er þetta ekki í fyrsta skipti sem þjófar eru á ferð við motocrossbrautina en í tvígang hefur díselolían verið tæmd af sömu gröfu.
Fyrri greinJón fræðir ungt fólk um fjármál
Næsta greinFjölbreytt dagskrá í jarðvangsviku