Stórt verkefni Set á erlendum vettvangi

Verkefnastaða Set Pipes GmbH í Þýskalandi, dótturfélags Set ehf á Selfossi er mjög góð, en fyrirtækið hefur fengið óvenju stór verkefni að undanförnu, svosem hjá Fjernvarme Fyn í Óðinsvéum.

Snemma í vor fékk fyrirtækið umrætt verk í kjölfar útboðs í Danmörku. Þar er um að ræða tvöfaldar pípur, þar sem tvö 125 mm stálrör eru í 500 mm hlífðarkápu.

Að sögn Bergsteins Einarssonar, framkvæmdastjóra Set, er verðmæti verkefnisins ríflega 100 milljónir íslenskra króna. Í kjölfarið hefur fyrirtækið svo fengið annað og stærra verkefni, þar sem unnið verður með stærri rör í sömu útfærslu.

„Við höfum verið að taka þátt í útboðum víða, og umfang þessa verkefnis er talsvert, eða um 70 til 80 farmar,“ segir Bergsteinn.

Að hans sögn er áætluð velta fyrirtækisins í Þýskalandi um 5,2 milljónir evra í ár. „Sum þessara verkefna hafa haft í för með sér hliðlæga framleiðslu á Selfossi og því aukinn útflutning héðan.“

Bergsteinn bætir við að jafnframt hafi verið annasamt í verkefnum á Íslandi á undanförnum vikum, en stærstu verkefnin hafa verið fyrir Hitaveitu Skagafjarðar og Húnaþing vestra sem og verkefni á Grænlandi.

Fyrri greinGróðureldur á Hellisheiði
Næsta greinGuðmunda vann brons á HM