Allt tiltækt slökkvilið í uppsveitunum ásamt mannskap frá Selfossi og Hveragerði var kallaður að Efsta-Dal 1 í Bláskógabyggð þar sem gamalt fjós var alelda.
Tilkynning barst um klukkan 00:45 og var mikill eldur í húsinu þegar að var komið. Enginn var þar inni, hvorki menn né búfénaður.
„Húsið var alelda þegar við komum og þakið fallið þannig að þetta hefur verið búið að krauma í einhvern tíma. Það gekk ótrúlega vel að slá á þetta þrátt fyrir að þetta sé stórt hús og lítið vatn á staðnum. Við þurftum að flytja allt vatn frá Laugarvatni á tankbílum,“ sagði Halldór Ásgeirsson, aðalvarðstjóri Brunavarna Árnessýslu í samtali við sunnlenska.is.
Slökkviliðsmenn frá Laugarvatni, Reykholti, Flúðum, Selfossi og Hveragerði mættu á vettvang og komu meðal annars tankbílar til vatnsflutninga frá Hveragerði, Selfossi og Flúðum.
„Það var einhver eldsmatur inni í húsinu og það urðu einhverjar sprengingar á meðan á slökkvistarfinu stóð, mögulega vegna gaskúta eða slíks. Slökkvistarfið gekk vel en húsið er ónýtt,“ bætti Halldór við.
Lögreglan fékk vettvanginn afhentan klukkan hálf sex í morgun og eru eldsupptök til rannsóknar hjá rannsóknardeild Lögreglustjórans á Suðurlandi.