Stórt torg við brúarsporðinn og bæjargarðurinn heldur sér

Ný tillaga að deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi var kynnt á opnum fundi sem bæjarstjórn Árborgar boðaði til í Ráðhúsinu á Selfossi í síðustu viku. Í framhaldinu samþykkti skipulags- og byggingarnefnd að koma tillögunni í formlegt auglýsingaferli.

Á kynningarfundinum útskýrðu höfundar tillögunnar, þeir Sigurður Hallgrímsson arkitekt og Þráinn Hauksson landslagsarkitekt, tillöguna og svöruðu fyrirspurnum fundarmanna sem voru rúmlega fjörutíu talsins.

Nýja tillagan er niðurstaða vinnu sem ráðist var í í kjölfar þess að sveitarfélagið keypti svokallaðan Miðjureit í miðbænum og leysti þannig kvaðir um byggingarmagn og fleira sem tilheyrði eldra skipulagi.

Í nýju tillögunni er lögð áhersla á grunnskipulag Selfoss þar sem bæjargarðurinn fær að halda sér syðst en gert er ráð fyrir stóru torgi nyrst á reitnum og vistgötu sunnan við Ráðhúsið og Miðgarð með tengingu að Tryggvagarði.
Þá er reynt að halda í byggingarsöguna eins og unnt er og þannig eru ágætar líkur á því að gamla mjólkurbúshúsið sem stóð austast í þorpinu rísi í miðbænum. „Teikning Guðjóns Samúelssonar af mjólkurbúinu er einstaklega falleg og mikill missir af gamla mjólkurbúinu,“ sagði Eyþór Arnalds, formaður skipulags og byggingarnefndar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.
„Hugmyndir hafa verið uppi um að byggja að einhverju leyti upp í íslenskri steinsteypuklassík sem er einkennandi fyrir miðbæ Selfoss í dag. Hér má nefna Ráðhúsið, Pakkhúsið og Landsbankann á Selfossi. Staðsetning mjólkurbúsins í tillögunni dregur ekki úr garðinum og styður við myndun bæjartorgs,“ segir Eyþór.

Margir hafa sýnt því áhuga að húsið Ingólfur fari aftur á þann stað sem húsið stóð á við brúarsporðinn en það var flutt í burtu til að rýma fyrir Miðjunni á sínum tíma. „Ingólfur er með elstu húsum á Selfossi og á sér merka sögu og tillagan tekur mið af þeim sjónarmiðum að varðveita byggingarsöguna eins og kostur er,“ segir Eyþór.

Skipulagið var tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd í morgun og segir Eyþór nú stefnt að því að ljúka skilmálum svo unnt sé að fara í formlegt auglýsingaferli. „Ég geri ráð fyrir því að hugmyndin verði birt á heimasíðu sveitarfélagsins á næstunni,“ sagði Eyþór að lokum.

Fyrri greinDekurdagur á Kirkjuhvoli
Næsta greinSjö bílveltur í liðinni viku