Stórt tóbaksrán í Björkinni

Sígarettum að verðmæti á aðra milljón króna var stolið úr söluskálanum Björkinni á Hvolsvelli í nótt.

Þjófurinn eða þjófarnir brutu rúðu og komust þannig inn. Þeir virðast hafa gengið hreint til verks og stolið ákveðnum sígarettutegundum en látið aðrar vera. Guðfinnur Guðmannsson, veitingamaður í Björkinni, sagði í samtali við sunnlenska.is að verðmæti þýfisins væri ekki ljóst á þessari stundu en það væri örugglega á aðra milljón króna.

Lögreglan er enn á vettvangi og rannsókn málsins er á frumstigi.

Þetta er annað innbrotið í Björkina á rúmu ári en í nóvember í fyrra brutust þrír menn þar inn og stálu tóbaki, áfengi og ýmsu fleiru. Verðmæti þýfisins í því innbroti var rúmar 820 þúsund krónur. Mennirnir voru dæmdir til refsingar en Guðfinnur fékk tjónið ekki bætt.

Fyrri greinSluppu með minniháttar meiðsli
Næsta greinHelgi Har: Ekkert Hókus Pókus?