Stórt svæði á Suðurlandi rafmagnslaust

Sunnlenskar rafmagnslínur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Rafmagn fór af stórum hluta Suðurlands kl. 22:20 í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er rafmagnslaust á Selfossi vegna útleysingar á Selfosslínu 1.

Sunnlenska.is hefur þó traustar heimildir fyrir því að einnig sé rafmagnslaust í Sandvíkurhreppi, á Eyrarbakka og Stokkseyri, í Ölfusinu, Flóahreppi, á Skeiðunum, í Gnúpverjahreppi og jafnvel víðar.

Í tilkynningu Landsnets segir að útleysing hafi orðið í tveimur spennum á Selfosslínu 1 sem liggur frá Ljósafossi á Selfoss og unnið sé að því að koma rafmagni aftur á.

Stærstan hluta dagsins var rafmagnslaust í Grindavík en þær gleðifréttir bárust um klukkan 22 að þar sé rafmagn komið aftur á.

UPPFÆRT: Kl. 22:43 var rafmagn komið aftur á Selfoss, Eyrarbakka, Stokkseyri og Sandvíkurhrepp. Í tilkynningu Landsnets segir að báðir spennar á Selfossi séu komnir inn aftur og eru RARIK og HS Veitur að vinna að því að koma rafmagni aftur á Selfossbæ (og vonandi víðar). Starfsmenn Landsnets eru á leiðinni að skoða Selfosslínu 1 sem er ennþá straumlaus.

Fréttin verður líklega ekki uppfærð

Fyrri greinStyrmir og Thomas leiddu stórsókn Þórsara
Næsta greinHergeir og Ragnar léku lausum hala