Stórt sumarhús við Apavatn varð eldi að bráð

Bústaðurinn er fallinn og gjörónýtur. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Stór sumarbústaður syðst við Apavatn í Grímsnesi brann til kaldra kola í morgun. Slökkvistarf var unnið með litlu vatni til þess að forðast það að mengun berist út í vatnið.

„Útkallið barst klukkan 7:08 og það var aðeins á reiki í upphafi hvar þetta væri og hvort um væri að ræða eld í gróðri eða húsi. Þegar við komum að þessu var bústaðurinn alelda og hann er gjörsamlega fallinn núna. Þetta er stórt hús með kjallara og risi,“ sagði
Halldór Ásgeirsson, aðalvarðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

„Þegar búið var að staðfesta að það var enginn í bústaðnum þá breyttist aðeins verklagið hjá okkur. Þetta er alveg við Apavatn og við notuðum eins lítið vatn og við þurftum til þess að halda eldinum í skefjum, það er allt frosið hérna og við viljum ekki fá mengun út í vatnið,“ bætti Halldór við. „Við munum væntanlega sitja yfir þessu fram að hádegi og slökkva í glæðum.“

Fimmtán slökkviliðsmenn frá Reykholti, Laugarvatni og Selfossi unnu að slökkvistarfinu þegar mest var, með tvo slökkvibíla og einn tankbíl.

Gott öryggissvæði í kringum húsið
Að sögn Halldórs skipti miklu máli að flötin í kringum húsið er vel slegin og þess vegna breiddist eldurinn ekki út í gróður.

„Það er svolítill gróður hérna í kring en heilmiklar flatir og þær eru vel slegnar og það skiptir máli að það sé gott öryggissvæði í kringum svona hús. Eldurinn náði ekki að breiðast neitt út í sinukargann. En það var heilmikill kolsvartur mökkur frá eldinum og hann lá hérna yfir uppsveitunum á stóru svæði enda stillt veður,“ segir Halldór.

Þegar slökkvistarfi lýkur fær lögreglan á Suðurlandi vettvanginn til rannsóknar, til þess að reyna að komast að eldsupptökum.

Fyrri greinGjafapokar og góð tilboð á konukvöldi
Næsta greinGina Tricot opnar á Íslandi í dag