Stórt sumarhús eyðilagðist í eldsvoða

Sumarbústaðurinn var alelda þegar slökkviliðið mætti á vettvang. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi og Laugarvatni voru kallaðir út rétt fyrir klukkan 20 í kvöld þegar tilkynnt var um eld í stóru, tveggja hæða sumarhúsi í landi Mýrarkots í Grímsnesi.

„Húsið var alelda þegar við komum á staðinn og engu bjargað þar. Það var geymsluskúr á lóðinni sem okkur tókst að bjarga en bústaðurinn sjálfur er allur brunninn. Við erum enn að vinna að því að slökkva í þessu og ég reikna með að það muni taka einhvern tíma,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri, þegar sunnlenska.is ræddi við hann laust eftir klukkan níu í kvöld.

Að sögn Lárusar var húsið mannlaust þegar eldurinn kom upp og enginn á svæðinu. Um tuttugu slökkviliðsmenn vinna að slökkvistarfinu og eru aðstæður til slökkvistarfs góðar en flytja þarf vatn á vettvang með tankbílum.

Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Fyrri greinUm áramót í töluðum orðum
Næsta greinGleðilegt nýtt ár!