Stórsýning hestamanna á Hellu

Stórsýning sunnlenskra hestamanna verður haldin að kvöldi skírdags, fimmtudaginn 24. mars næstkomandi í Rangárhöllinni á Hellu.

Í tilkynningu segir að sýningin muni einkennast af léttleika og skemmtun og ættu allir hestaáhugamenn að fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Sýningin í fyrra þótti mjög vel heppnuð og var vel sótt af áhorfendum. Mörg af þeim hrossum sem komu fram þá áttu eftir að láta að sér kveða í sýningum og keppni árið 2015. Má þar nefna heimsmeistarann í tölti Kristínu Lárusdóttur og Þokka frá Efstu-Grund, hæst dæmdu klárhryssu allra tíma Sendingu frá Þorlákshöfn og afkvæmi Álfinns frá Syðri-Gegnishólum en hann lét að sér kveða sem kynbótahestur á síðastliðnu ári.

Sýningin í ár verður ekki viðaminni og eru atriði að taka á sig mynd.

Fyrri greinGuðmunda lánuð til Noregs fram að Íslandsmóti
Næsta greinÁrborg og Selfoss framlengja þjónustusamning