Stórólfur borinn út af Stórólfsvelli

Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands þann 23. september sl. var fallist á þá kröfu Héraðsnefndar Rangæinga að Stórólfur ehf, fyrrverandi leigutaki á Stórólfsvelli, verði ásamt öllu því sem honum tilheyrir, borinn út af jörðinni sem er í eigu Héraðsnefndar Rangæinga.

Að Héraðsnefndinni standa sveitarfélögin Ásahreppur, Rangárþing ytra og Rangárþing eystra.

Héraðsnefnd Rangæinga gerði leigutökum það strax ljóst á árinu 2008 að ekki stæði til að framlengja leigusamningi sem gerður var á sínum tíma og rann út í september 2010. Leigjendur óskuðu eftir því að fá landið leigt áfram í heild eða að hluta en um slíkt varð ekki samkomulag innan héraðsnefndar.

Í framhaldi af þeim þreifingum var samþykkt að fela lögmanni að sjá um hagsmunagæslu fyrir Héraðsnefnd. Var það m.a. gert til þess að tryggja réttarstöðu hennar sem eiganda landsins og gæta þess að ekki skapaðist fyrir tómlæti áframhaldandi leiguréttur fráfarandi leigutaka að landinu en hann hefur setið áfram á jörðinni og nýtt hana eftir að leigusamningnum lauk.

Vegna þessa var m.a. nauðsynlegt að tryggja rétt Héraðsnefndar með því ferli fyrir dómstólum sem lauk með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands um útburð leigutaka á föstudaginn var. Það á svo eftir að koma i ljós hvort að þessi niðurstaða verður af leigutökum kærð til Hæstaréttar.

Sveitarfélögin Rangárþing ytra og Ásahreppur hafa óskað eftir að selja sinn hlut í jörðinni Stórólfsvelli og hefur Rangárþing eystra lýst sig reiðubúið til að gera tilboð í hlut sveitarfélaganna. Einnig hefur komið fram í viðræðum að leigutakar kunni að hafa hug á því að kaupa hluta af því landi sem um ræðir.

Í tilkynningu frá Héraðsnefnd Rangæinga segir að vonast sé til þess að samningar náist um kaupin á landinu og einnig farsæl úrræði hvað stöðu og starfsemi leigutaka varðar. Er þess vænst að allir aðilar kappkosti að ná slíkri viðunandi niðurstöðu nú í framhaldinu.