Stormurinn kominn á netið

Fyrir 8 árum gaf Nýtt land út bókina „Stormurinn – reynslusaga ráðherra“, eftir Björgvin G. Sigurðsson. Bókin fjallar um aðdraganda efnahagshrunsins 2008, og eftirmál þess út frá sjónarhorni Björgvins sem viðskiptaráðherra og alþingismaður.

Bókin hefur nú verið sett á netið í heild sinni á heimasíðunni stormurinn.is.

„Þar sem bókin er nú að verða fágæt á prenti en oft eftir henni leitað, til mín og útgefanda, ákvað ég að setja hana á opna vefsíðu þar sem bókina er að finna í heild sinni. Mikilvægt er að allar helst heimildir um þessa einstöku tíma og atburði í sögu okkar séu aðgengilegir í framtíðinni og því var ákveðið að fara þá leið að setja bókina upp á opinni vefsíðu, henni einni helgaðri,“ segir Björgvin.

Á baksíðu bókarinnar segir:

„Nokkrum mínútum eftir að ríkisstjórnarfundurinn hófst var forsætisráðherra kallaður fram. Til baka kom hann fölur yfirlitum og augljóslega mjög sleginn. Á fundinn hafði án fyrirvara ilkynnt komu sína óboðinn gestur.“

Björgvin G. Sigurðsson varð ungur viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Nokkrum mánuðum síðar brast á mesta fárviðri efnahags og stjórnmála sem um getur í Íslandssögunni.

Hver hefur sína sögu að segja af þessum umbrotatímum. Þetta er saga Björgvins.

Fyrri greinUpplestur úr nýjum bókum
Næsta greinGert ráð fyrir rúmlega 500 milljóna króna rekstrarafgangi