Stórfróðlegar umræður og fjöldi ábendinga

Frá fundinum á Selfossi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Fjöldi fólks sótti fundi sem haldnir voru vítt og breitt um landið í tengslum við gerð landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks.

Hringferð Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hafði það að markmiði að gefa fólki tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun stefnu um þjónustu við fatlað fólk hér á landi.

„Greinilegt er að fólk hafði áhuga á því að fá að koma beint að stefnumótuninni með þessum hætti. Umræðurnar voru stórfróðlegar og okkur barst fjöldi ábendinga, athugasemda og hvatningarorða. Ég er afar þakklátur fyrir móttökurnar. Það var dýrmætt að setjast niður á þennan hátt með notendum þjónustunnar, foreldrum, ættingjum, fagfólki sem vinnur í málaflokknum sem og áhugafólki um málefni fatlaðs fólks,“ segir Guðmundur Ingi.

Auk þess sem fundað var á Selfossi voru fundir haldnir í Reykjanesbæ, Borgarnesi, Reykjavík, á Höfn, Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum og Sauðárkróki og einnig var haldinn rafrænn fundur fyrir allt landið.

Fyrri greinValgerður fékk þjálfarastyrk frá Ólympíusamhjálpinni
Næsta greinEllefu athafnalóðir í fyrsta áfanga