Stórbruni á Hörgslandi

Veitingaskálinn á Hörgslandi brann til kaldra kola í dag. Ljósmynd/Sigurjón Andrésson

Eldur kviknaði í veitingaskálanum á Hörgslandi á Síðu um miðjan dag í dag og er húsið brunnið til kaldra kola. Slökkvistarf gekk vel við erfiðar aðstæður. Húsið var mannlaust þegar eldurinn kom upp og enginn slasaðist í eldsvoðanum.

„Það er verið að slökkva í glæðum núna, þetta var stórt hús, tvær burstir og það er alveg brunnið niður,“ sagði Guðmundur Vignir Steinarsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Skaftárhrepps, í samtali við sunnlenska.is nú á sjötta tímanum.

„Þegar við mættum á svæðið var húsið nánast alelda inni, húsið er á tveimur hæðum og gólfið var farið. Þetta gekk eins vel hjá okkur og hægt var, það var hávaðarok fram af fjallinu og hvirflar í allar áttir þannig að það var erfitt að finna stað til þess að standa á, það ýmist blés á móti okkur eða í bakið,“ sagði Guðmundur Vignir ennfremur.

Hörgsland er 5 kílómetrum austan við Kirkjubæjarklaustur og þar hefur verið rekin ferðaþjónusta um árabil. Ljóst er að tjónið er mikið.

„Við vorum tíu slökkviliðsmenn frá Klaustri og fengum svo sex manna liðsauka frá Vík í Mýrdal. Við náðum að forða öðru húsi sem var í hættu á tímabili vegna hita og glóða en við náðum að kæla það og halda aftur af því á meðan mesti hitinn gekk yfir,“ segir Guðmundur.

Fyrri greinTalsverður eldur á byggingarsvæði í Ölfusi
Næsta greinVegleg gjöf Halldórusystra til ljósmæðravaktar HSU