Stórbætt lýsing við leikskólann Óskaland

Leikskólalóðin við Óskaland. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Nýverið var lýsing endurhönnuð og endurnýjuð á lóð leikskólans Óskalands í Hveragerði.

Eldri lýsing hafði verið óbreytt frá byggingu leikskólans og var orðin úr sér gengin og ófullnægjandi. Að auki var notast við lampa með kvikasilfursperum sem bannað er að framleiða í dag og því ekki hægt að gera við það sem bilaði.

Til að færa lýsinguna til nútímans var ákveðið að endurnýja lýsinguna með LED-ljósum og var Kristín Ósk Þórðardóttir rafmagnsverkfræðingur og sérfræðingur í ljósahönnun hjá verkfræðistofunni Lotu fengin til að útfæra nýju lýsinguna. Ákveðið var að notast við núverandi staura en uppfæra ljósin sjálf.

Að sögn Höskuldar Þorbjarnarsonar, umhverfisfulltrúa Hveragerðisbæjar, er skemmst er frá því að segja að nýja lýsingin hefur komið einstaklega vel út. Börnin, starfsmenn og foreldrar eru öll sammála um að munurinn sé eins og dagur og nótt – í orðsins fyllstu merkingu – sérstaklega í skammdeginu þegar það er oft nánast myrkur á útivistartímum. Það er ekki bara að lýsingin hafi verið stórbætt heldur verður við það heilmikill orkusparnaður þegar skipt er yfir í LED lýsingu en þar getur munað meira en 50% sem er gott fyrir umhverfið og fjárhaginn.

Leiksvæði yngstu barnanna vestan megin við húsið naut nýju lýsingarinnar þó ekki í sama mæli og afgangurinn af lóðinni og hefur því nú í tilraunaskyni verið skipt um lampa á tveimur ljósastaurum við Finnmörkina en þeir standa þétt við leiksvæði yngstu barnanna. Þar sem þessi ljós lýsa allan hringinn þá hefur lýsingin þegar batnað veruleg á svæðinu.   Væntanlega verða síðan svipaðar lýsingalausnir settar upp á bílastæði leikskólans og á öðrum stöðum sem þarfnast mikillar lýsingar.

Fyrri greinSvartbauna brúnkökur
Næsta grein„Spiluðum eins og englar“