Stóraukin kolefnisförgun á Hengilssvæðinu

Nesjavallavirkjun. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Orka náttúrunnar hefur ákveðið að margfalda kolefnisförgun fyrirtækisins við jarðvarmavirkjanirnar á Hengilssvæðinu. Þetta tengist þeirri ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfélags ON, að vera búin að kolefnisjafna alla starfsemi samstæðunnar fyrir árslok 2030, tíu árum fyrr en áður hafði verið ákveðið.

33 tonnum af CO2 fargað hvern dag
Kerfisbundin kolefnisförgun við Hellisheiðarvirkjun hófst árið 2014 eftir að CarbFix-aðferðin hafði verið þróuð í samstarfi OR, Háskóla Íslands og erlendra vísindamanna frá árinu 2007. Koltvíoxíði (CO2) sem kemur upp með jarðhitagufunni, er þar blandað saman við vatn og dælt djúpt í berglög þar sem gróðurhúsalofttegundin steinrennur – svokallað „gas í grjót“. Nú eru bundin við virkjunina 33 tonn á hverjum degi. Það svarar gróflega til losunar frá daglegu lífi um 1.000 Íslendinga.

Sama aðferð nýtist jafnframt til að fanga brennisteinsvetni (H2S) úr jarðgufunni. Nú eru um 70% af brennisteinsvetni sem upp kemur við jarðhitanýtinguna bundið sem steindir í jarðlögum við virkjunina. Aukin binding þýðir að öllu brennisteinsvetni sem upp kemur verður fargað, samhliða koltvíoxíðinu.

Áætlað er að þessi aðferð til að glíma við brennisteininn hafi sparað OR og ON sem nemur um 13 milljörðum króna og er þá borið saman við hefðbundnar lausnir í þeim efnum. Þar skipta máli talsverðir styrkir sem fengist hafa úr rannsóknaráætlunum Evrópusambandsins til þróunar aðferðarinnar. Frá árinu 2014 hefur hreinsun koltvíoxíðs og brennisteinsvetnis verið rekin sem hluti vinnsluferla heits vatns og rafmagns við Hellisheiðarvirkjun og undirbúningur að uppsetningu við Nesjavallavirkjun er hafinn.

Sporlaus vinnsla
„Við tökum Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna alvarlega,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar. „Þar standa loftslagsmarkmiðin okkur nærri og opinber stefna okkar hjá ON um sporlausa vinnslu jarðhitans á Hengilssvæðinu smellpassar við þau. Ef við ætlum að bregðast við loftlagsvánni af þeirri alvöru sem hún krefst, verðum við öll að leggja okkur fram – fólk, fyrirtæki og stjórnvöld – og þar ætlar Orka náttúrunnar að vera í forystu,“ bætir Berglind við.

Fyrri grein„Lærum saman“ í handhægri öskju
Næsta greinJólasýning og skáldastund í Húsinu