Stóráfallalaus verslunarmannahelgi hjá lögreglunni

Lögreglan á Mýrdalssandi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Verslunarmannahelgin fór að stærstum hluta stóráfallalaust fram í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Lögreglumenn voru með virkt eftirlit bæði með umferð og skemmtanahaldi í tengslum við þau mannamót sem voru haldin á svæðinu. Ásamt því var eftirlit í samstarfi við þyrluáhöfn Landhelgisgæsluna þar sem flogið var með hringveginum og um hálendið.

Meðal stórra viðburða í umdæminu voru ungmennalandsmót á Selfossi, fjölskylduhátíð á Flúðum, auk þess sem langstærstur hluti þjóðhátíðargesta fór í gegnum umdæmið á leið sinni í Landeyjahöfn.

Alls komu 360 mál og verkefni inn á borð lögreglu um helgina. Tilkynnt var um kynferðisbrot og einnig barst tilkynning um mögulega byrlun ólyfjan. Þessi mál eru til rannsóknar hjá embættinu ásamt þremur tilkynningum um eignaspjöll.

Átta ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða lyfja. Sextán ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis auk þess var akstur um þrjátíu ökumanna stöðvaður þar sem áfengi mældist í við prófun en var þó undir refsimörkum. Þá voru tólf ökumenn kærðir fyrir að aka án gildra ökuréttinda.

Lögreglan aðstoðaði auk þess fjölda einstaklinga sem voru ýmist öðrum til ama eða ósjálfbjarga vegna neyslu áfengis eða annara vímugjafa.

Fyrri greinÞorsteinn Aron kominn heim
Næsta greinHola í höggi eftir 28 ára bið