Stór skriða féll í Dyrhólaey

Lögreglan á Suðurlandi hefur lokað fyrir umferð fram á Hæltónna í Dyrhólaey eftir að stór skriða féll úr vesturhlíðum eyjarinnar í nótt eða í morgun. Enginn var á ferðinni þegar þetta gerðist en gönguslóði er á svæðinu sem hrundi niður í fjöru.

Grétar Einarsson skoðaði aðstæður á Dyrhólaey í dag og hann sagði í samtali við sunnlenska.is að skriðan hefði fallið fyrir ofan litla gatið en þar höfðu menn orðið varir við hrun um miðjan apríl.

„Þetta hrynur inn í göngustíg sem er þarna og maður sér áframhaldandi sprungu í framhaldi af því sem hrundi úr núna, þannig að þetta er laust í sér,“ sagði Grétar. Gríðarleg umferð ferðamanna er á hverjum degi í Dyrhólaey og göngustígurinn fjölfarinn.

Aron Reynisson, leiðsögumaður, var á ferð um Dyrhólaey í hádeginu í dag og í samtali við RÚV sagði hann að skriðan væri um 100 til 120 metra breið.


Fjölfarinn gönguslóði hrundi niður í fjöru í morgun. Ljósmynd/Aron Reynisson


Þessi mynd er tekin á sama stað og efsta myndin þann 17. apríl en þá hafði orðið vart við grjóthrun í litla gatinu. sunnlenska.is/Grétar Einarsson

Fyrri greinSæmundur gefur út „Jómfrú Ragnheiði“
Næsta greinEldur í bústað við Þingvallavatn