Stór skjálfti vakti Sunnlendinga

Skálafell á Hellisheiði. Mynd úr safni. sunnlenska.is

Jarðskjálfti af stærðinni 4,4 með upptök rétt sunnan við Skálafell á Hellisheiði vakti marga Sunnlendinga kl. 2:56 í nótt.

Skjálftinn fannst vel víða á Suðurlandi. Í Flóanum hristist allt duglega og þeir sem voru sofnaðir vöknuðu við hristinginn og drunurnar. Skjálftinn fannst einnig vel á höfuðborgarsvæðinu og heimildarmenn sunnlenska.is á Hellu og Hvolsvelli, í Landeyjum og allt austur í Skaftártungu fundu vel fyrir skjálftanum. Einnig á Flúðum og víðar í uppsveitum Árnessýslu.

Í íbúðarhúsum við Þorlákshafnarveg, milli Hveragerðis og Þorlákshafnar, nálægt upptökum skjálftans, hristist vel og hlutir féllu niður úr hillum.

Á Selfossi virtist skjálftinn vera stuttur og snarpur og honum fylgdu miklar drunur.

Engir aðrir skjálftar höfðu orðið á svæðinu í aðdraganda stóra skjálftans. Upptökin eru á þekktu skjálftasvæði á Heiðinni Há, tæpa 8 km vest-suð-vestur af Hveragerði.

UPPFÆRT KL. 3:25: Frumniðurstöður sögðu stærð skjálftans vera 4,2 en Veðurstofan hefur nú yfirfarið gögn og segir styrk skjálftans hafa verið 4,7.

UPPFÆRT KL. 3:38: Veðurstofan hefur nú metið styrk skjálftans 4,4.

Kort með staðsetningum jarðskjálfta

 

Fyrri greinBesta lyktin af nýoltinni torfu í plógstreng
Næsta greinUm þrjátíu eftirskjálftar hafa mælst