Stór skjálfti í Vatnafjöllum

Jarðskjálfti af stærðinni 5,2 varð í Vatnafjöllum, rúmlega sjö kílómetrum sunnan við Heklu kl. 13:21 í dag. Vatnafjöll eru talin til eldstöðvakerfis Heklu. Skjálftinn fannst greinilega um allt Suðurland, úti í Vestmannaeyjum, á höfuðborgarsvæðinu og allt austur í Skaftártungu.

Rangæingar fundu skiljanlega vel fyrir skjálftanum. Margrét Guðjónsdóttir, á Héraðsbókasafninu á Hvolsvelli, segir á Facebooksíðu sunnlenska.is að skjálftinn hafi verið mjög langur og minnt sig á Suðurlandsskjálftann árið 2000.

Einar Sindri Ólafsson, hjá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands, sagði í samtali við sunnlenska.is að líklega sé um að ræða skjálfta sem tengist Suðurlandsbrotabeltinu.

Á Selfossi hristust innréttingar, kyrrstæðir bílar vögguðu og margir heyrðu háan hvin en skjálftinn varði í nokkrar sekúndur.

Jarðskjálftahrinan í Vatnafjöllum hófst rétt fyrir hádegi og klukkan 13:55 hafði á fjórða tug eftirskjálfta mælst.

Fyrri greinLoksins sigur hjá Selfyssingum
Næsta greinDæmigerður Suðurlandsskjálfti