
Háskólafélag Suðurlands fékk í vor 17 milljón króna Erasmus+ styrk í samvinnu við aðila í Slóveníu og Serbíu, vegna verkefnisins Roadmap to Sustainable Living sem stýrt verður frá Háskólafélagi Suðurlands á Selfossi.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Inštitut Središče zagovorništva í Slóveníu og Jedi Movement í Serbíu, en Rannís er Landsskrifstofa Erasmus hér á landi. Fjárhæðin skiptist á milli þessara þriggja aðila en sautján verkefni fengu úthlutað styrk í sumar og voru um 500 milljónir í pottinum.
Valdefla fullorðið fólk
Roadmap to Sustainable Living hefur það að markmiði að valdefla fullorðið fólk sem hefur af ýmsum orsökum færri tækifæri eða tengslanet inn í samfélagið. Áhersla verkefnisins er á umhverfismál og sjálfbærni og er ætlunin að útbúa verkfærakistu fyrir einstaklinga, stofnanir og sveitarfélög sem nýtist til fræðslu og miðlunar.
Auk þess verða haldnar vinnustofur þar sem þátttakendur fá tækifæri til þess að efla færni sína í verki. Einblínt verður á sjálfbærni, inngildingu og virkni í lýðræðissamfélagi sem spannar þá þrjár af fjórum áherslum Erasmus. Þátttakendur í verkefninu verða íbúar af Suðurlandi, einna helst í Árnessýslu sem og úr nágranna sveitarfélögum Nis í Serbíu og Ljubljana í Slóveníu.
Snertir marga fleti
„Það gleður okkur svo sannarlega að fá að taka þátt í því að móta og styðja við fólk af erlendum uppruna, tengja einstaklinga betur inn í samfélagið og valdefla til sjálfbærari lífshátta. Verkefnið mun snerta marga fleti í vegferð sinni og hlökkum við til að samstarfsins við fulltrúa okkar í Slóveníu og Serbíu,“ segir Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, verkefnastjóri hjá Háskólafélagi Suðurlands.
Helga Kristín og Ingveldur Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri HfSu, munu leiða verkefnið næstu 18 mánuði en það hófst í september og upphafsfundur verkefnisins var haldinn á Selfossi í síðustu viku með þátttöku samstarfsaðilana frá Slóveníu og Serbíu.
Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á Facebook síðu verkefnisins Road to Sustainable Living.
