„Stönginn inn“ í Þjórsárdal

Timburpallur verður reistur yfir gamla bæinn að Stöng og mun hann mynda umgjörð utan um fornminjarnar sem komu í ljós við uppgröftinn 1939.

Þrettán tillögur bárust í almennri hugmyndasamkeppni um hönnun ásýndar og umhverfis fornleifa við Stöng í Þjórsárdal sem efnt var til í sumar.

Meðal meginmarkmiða verkefnisins var að færa rústir Stangar í upprunalegt horf og sýna þær fornleifar sem þar komu í ljós árið 1939.

„Stönginn inn“ heitir tillagan sem sigraði í hugmyndasamkeppninni en höfundar hennar eru Karl Kvaran arkitekt og skipulagsfræðingur og Sahar Ghaderi arkitekt frá Íran
Fornleifavernd ríkisins, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu og Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafa á undanförnum árum verið í samvinnu um að bæta aðgengi að minjum í Þjórsárdal og miðlun upplýsinga um þær. Árið 2012 fékkst styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða hjá Ferðamálastofu, sem gerði þeim kleift að efna til hugmyndasamkeppninnar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.
Markmið samkeppninnar var að reisa yfirbyggingu til að verja fornleifarnar gegn veðrun, vindi og að hönnunin taki mið af því að þetta sé staður þar sem fólk kemur og skoðar fornleifar og nýtur umhverfisins og kyrrðarinnar.

Markmiðið er einnig að nýta megi lausnina sem tillögu að því hvernig megi vinna að svipuðum verkefnum í framtíðinni á öðrum minjastöðum á Íslandi.

Minjarnar í Þjórsárdal eru hvað best varðveittar minja frá víkingaöld, sökum öskufalls frá Heklu sem lagði byggðina í rúst fyrir mörgum öldum.

Í dómnefndaráliti segir meðal annars að tillagan sé „afgerandi og sterk en hefur um leið látlaust yfirbragð og gefur góð fyrirheit um heilsteypta umgjörð um hinar merku minjar að Stöng“.

Nýjum bílastæðum er komið fyrir á látlausan hátt við núverandi bílavað. Þaðan liggur beinn göngustígur, um nýja göngubrú, sem er vel aðlöguð landi að bæjarhólnum á formrænt sterkan hátt. Á gönguleiðinni miðri er komið fyrir áningarstað en salernisaðstaða er við bílastæði. Um leið og þessari aðalaðkomuleið er bætt við er eldri gönguleiðum haldið þannig að til verður vel virkt göngustígakerfi með möguleikum á hringumferð.

Á bæjarhólnum sjálfum myndar einn samfelldur timburpallur umgjörð utan um fornminjarnar. Form hans er sjálfstætt og ótengt formum rústanna. Pallurinn leggst að minni rústunum á svæðinu og er svo teygður yfir bæjarrústina og myndar þannig þak yfir henni sem um leið er útsýnispallur. Þaðan blasir útsýnið yfir dalinn við og tengir staðinn jafnframt við aðra forna staði.