Stolnir hjólbarðar til sölu á Barnalandi

Stórir hjólbarðar sem stolið var í innbroti á Selfossi um síðustu helgi voru auglýstir til sölu á barnaland.is.

Eigandi hjólbarðanna sá þá auglýsta á Barnalandi og lét lögreglu vita af því. Þegar í stað voru gerðar ráðstafanir til að komast að því hver væri með hjólbarðana. Leitað var til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um aðstoð við það verk sem leiddi til þess að hjólbarðarnir fundust.

Einn maður var handtekinn í tengslum við málið en hann gaf þá skýringu að hann hefði fundið hjólbarðana á víðavangi.