Stokkseyrarkirkja 130 ára

Á Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þess verður minnst með messu næstkomandi sunnudag að á þessu ári eru liðin 130 ár frá vígslu Stokkseyrarkirkju. Messan hefst kl. 11 og er vonast eftir góðri kirkjusókn en kaffi er á eftir í safnaðarheimilinu.

Heimildir eru um Maríukirkju á Stokkseyri frá því um 1200 en kirkja hefur staðið á Stokkseyri frá fyrstu tíð. Stokkseyrarkirkja er reist 1886 eða skömmu eftir að sóknarnefndir urðu til og færðist hún þá til sóknarinnar frá því að vera bændakirkja.

Yfirsmiður var Jón Þórhallsson trésmiður á Eyrarbakka en kirkjan var einnig prófverkefni nemenda hans, Jóns Gestssonar í Villingaholti og Símonar Jónssonar á Selfossi. Kirkjan er timburkirkja og járnklædd og vel við haldið.

Formaður Stokkseyrarsóknar er Samúel Smári Hreggviðsson í Stóru Sandvík.

Saga kirkjutónlistar er mikil í Stokkseyrarkirkju og eru góðar heimildir til um forsöngvara, kóralíf og organista. Núverandi organisti er Haukur Arnarr Gíslason og stjórnar hann einnig Kór Stokkseyrarkirkju. Fyrsti forsöngvari svo vitað sé var Bergur Sturlaugsson frá Brattsholti og fyrsta orgel kom í Stokkseyrarkirkju 1876. Núverandi orgel er smíðað á Stokkseyri af Björgvini Tómassyni 2003. Meðal fyrrum organista má nefna Bjarna Pálsson í Götu og bræður hans Jón og Ísólf tónskáld, og loks Gísli í Hoftúni, en eftir hann dóttir hans, Margrét Gísladóttir, og svo Pálmar Þ. Eyjólfsson tónskáld í Skipagerði.

Stokkseyrarkirkju hefur verið þjónað af prestum sem sátu á Stokkseyri í kaþólskum sið en síðar af prestum er sátu Gaulverjabæ til ársins 1856. Eftir það sátu prestar á Eyrarbakka, á Stokkseyri, á Stóra Hrauni og á Eyrarbakka, en prestssetur var aflagt árið 2009. Sóknarprestar kirkjunnar á seinni tíð hafa verið sr. Ólafur Helgason, sr. Gísli Skúlason, sr. Árelíus Níelsson, sr. Magnús Guðjónsson, sr. Valgeir Ástráðsson, sr. Úlfar Guðmundsson og sr. Sveinn Valgeirsson, auk afleysingapresta, en sóknarprestur er í dag sr Kristján Björnsson.