Stökk fyrir bíla við Kögunarhól

Karlmaður á fimmtugsaldri skapaði stórhættu með því að stökkva fyrir bíla á Suðurlandsvegi við Kögunarhól í nótt.

Maðurinn var að reyna að fá far til Reykjavíkur en þegar enginn tók hann uppí fór hann að stökkva fyrir bíla og láta illa.

Á annan tug ökumanna lét lögreglu vita af athæfi mannsins. Þetta var um klukkan eitt í nótt og því svarta myrkur en töluverð umferð.

Lögreglan fór á vettvang og handtók manninn vegna ölvunar og óspekta. Hann gisti fangageymslur á Selfossi fram undir morgun þegar runnið var af honum að mestu.

Þá var ökumaður tekinn á 106 kílómetra hraða innanbæjar á Selfossi í gær þar sem leyfður hámarkshraði er 50. Maðurinn er um tvítugt. Hann var sviptur ökuréttindum.

Fyrri greinDBS á Grænu könnunni
Næsta greinHarður árekstur á Suðurlandsvegi