Stofnun MAST á Selfossi vel heppnuð breyting

Að mati Ríkisendurskoðunar er stofnun Landbúnaðarstofnunar á Selfossi, síðar Matvælastofnunar, dæmi um vel heppnaða breytingu við flutning ríkisstofnana milli landshluta.

Staðið hafi verið vel að undirbúningi og áætlanagerð við sameiningu stofnana og verkefna í nýrri stofnun á Selfossi og gerð hafi verið skýr krafa um aukna skilvirkni og hagkvæmni í rekstri.

Annað dæmi sem tekið er um vel heppnaðan flutning er stofnun Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar á Blönduósi.

Ríkisendurskoðun gaf í gær út skýrslu og birti frétt um flutning fimm ríkisstofnana á milli landshluta á árunum 1999-2007. Landbúnaðarstofnun hóf starfsemi á Selfossi árið 2006 og var síðan breytt í Matvælastofnun á árinu 2008 við enn frekari sameiningu stofnana og starfseininga á sviði stjórnsýslu og eftirlits með matvælum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er einnig fjallað um flutning höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar, sem enn stendur yfir.

Fyrri grein„Form og flæði“ í Listagjánni
Næsta greinKatrín Ósk ráðin markaðs- og menningarfulltrúi Ölfuss