Stofnfundir Kötluseturs og jarðvangs

Á morgun, föstudaginn 19. nóvember kl. 14:30 verða haldnir stofnfundir sjálfseignarstofnana um Kötlusetur, og um Geopark (jarðvang). Fundirnir verða í Brydebúð í Vík.

Með stofnun Kötluseturs rætist draumur Mýrdælinga um stofnun Þekkingarseturs í Vík. Mýrdalshreppur leggur til húseignirnar Víkurbraut 17 og 21a (Skaftfellingsbúð og Halldórsbúð), Menningarfélagið um Brydebúð leggur til húseignina Víkurbraut 28, og Háskólafélag Suðurlands er einnig aðili að setrinu.

Kötlusetur byggir þannig á þeim árangri sem Menningarfélagið um Brydebúð hefur náð með endurbyggingu gamla kaupfélagshússins (Brydebúð) og sýningarhaldi þar, og framtaki listamannsins Sigrúnar Jónsdóttur sem beitti sér fyrir því að skipið Skaftfellingur var flutt frá Vestmannaeyjum austur í Vík og hefur nú verið komið fyrir í Skaftfellingsbúð.

Geoparkverkefnið er sprottið úr fyrsta átaksverkefni Háskólafélags Suðurlands, Net þekkingar frá Markarfljóti að Skeiðará, en það var m.a. styrkt af Vaxtarsamningi Suðurlands, Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands auk sveitarfélaganna þriggja; Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Átaksverkefninu lauk í árslok 2009 en sveitarfélögin hafa haldið áfram með verkefnið undir stjórn Ragnhildar Sveinbjarnardóttur ferðamálafræðings í Stóru-Mörk. Stefnt er að því að jarðvangurinn sæki um aðild að evrópsku samstarfsneti, European Geoparks Network, sem tengist einnig sambærilegu neti hjá UNESCO. Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur vinnur að gerð jarðfræðiskýrslu um svæðið sem verður veigamikill hluti umsóknarinnar. Í Geopark/jarðvangi er lögð áhersla á vandaða náttúrutengda ferðaþjónustu með áherslu á jarðfræði og fræðslu en ekki síst er Geopark/jarðvangur mikið og sterkt markaðstæki.

Stofnaðilar jarðvangsins eru fyrrnefnd þrjú sveitarfélög, Háskólafélag Suðurlands, Kirkjubæjarstofa, Kötlusetur, Skógasafn og Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands. Síðan er gert ráð fyrir að ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu gerist félagsaðilar að stofnuninni.

Allir eru velkomnir á stofnfundina í Brydebúð til að samfagna þessum áfanga í uppbyggingu þekkingarsamfélagsins eystra. Í lok funda verða veitingar í boði Menningarfélagsins um Brydebúð.
Dagskrá stofnfunda Kötluseturs og Katla Geopark 19.11.2010 kl. 14:30 í Brydebúð í Vík
• Tónlistaratriði – Tónskóli Mýrdælinga
• Gísli Sverrir Árnason – Kötlusetur
• Skipulagsskrá Kötluseturs – Sigurður Sigursveinsson Háskólafélagi Suðurlands
• Undirritun skipulagsskrár
• Elín Einarsdóttir oddviti Mýrdalshrepps
• Fulltrúi Menningarfélagsins um Brydebúð
• Tónlistaratriði – Tónskóli Mýrdælinga
• Net þekkingar frá Markarfljóti að Skeiðará – Steingerður Hreinsdóttir Háskólafélagi Suðurlands
• Ragnhildur Sveinbjarnardóttir verkefnisstjóri: Hvað er Geopark ?
• Niðurstaða í nafnasamkeppni
• Skipulagsskrá Katla Geopark – Sigurður Sigursveinsson Háskólafélagi Suðurlands
• Undirritun skipulagsskrár
• Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Rangárþings eystra
• Eva Harðardóttir hótelstjóri á Hótel Laka
• Orðið laust
Veitingar í boði Menningarfélagsins um Brydebúð