Stofnanir vilja í Sandvíkurskóla

Nokkrar stofnanir sem staðsettar eru á Selfossi hafa hug á því að sameinast undir eitt þak í húsnæði Sandvíkurskóla.

Samningaviðræður við bæjaryfirvöld í Árborg eru langt komnar en Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, segir að endanleg ákvörðun um hvort af þessu verður muni liggja fyrir á næstu dögum.

Nú stendur yfir endurhönnun á húsnæðinu til þess að koma til móts við þarfir þeirra stofnana sem hyggjast starfa þar. Í framhaldinu yrði svo ráðist í að breyta húsnæðinu.

Stofnanirnar sem um ræðir eru Fræðslunet Suðurlands, Háskólafélag Suðurlands, Birta – starfsendurhæfing Suðurlands, Háskólasetur, Markaðsstofa Suðurlands og fleiri.

Ef af þessu verður er stefnt að því að flytja í húsnæði skólans í desember næstkomandi.