Stofna starfshóp um umhverfismál

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu S-listans um að stofnaður verði starfshópur um umhverfismál í sveitarfélaginu sem hefði þríþætt hlutverk

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista, fylgdi tillögunni úr hlaði og tíundaði væntanlegt hlutverk hópsins.

Honum er ætlað að móta tillögur að áætlun um hvernig unnið verði að því að draga úr notkun innkaupapoka úr plasti í sveitarfélaginu í samræmi við tillögu sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í ágúst.

Einnig er honum ætlað að móta tillögur og áætlun um hvernig nýta megi það fjármagn sem sveitarfélagið fær frá Sorpstöð Suðurlands til kynningar á flokkun sorps með það að markmiði að auka þátttöku íbúa í sorpflokkun og meðvitund um mikilvægi þess.

Í þriðja lagi er hópnum ætlað að móta tillögur að stefnu sveitarfélagsins í sorphirðu og hvernig sorphirðu eigi að vera háttað þegar samningur um sorphirðu rennur út í vor.

Áætlanir og tillögur í þessa átt eiga að liggja fyrir á vormánuðum.

Í greinargerð með tillögunni segir að íbúar kalli í auknu mæli eftir að sveitarfélagið auðveldi þeim sem þegar eru duglegir að flokka að losa sig við flokkað sorp.

„Sveitarfélagið Árborg þarf að gera stórátak í því að bjóða íbúum upp á meiri flokkun við heimili í sveitarfélaginu ásamt því að bjóða upp á að íbúar geti komið með flokkað sorp og losað það á gámastöðinni að Víkurheiði. Í vor rennur út samningur við Íslenska gámfélagið um sorphirðu. Það er því mikilvægt að byrja strax að móta stefnu í sorphirðu fyrir sveitarfélagið og skoða með hvaða hætti menn sjá fyrir sér að sorphirðan verði og hvað eigi að bjóða út í vor,“ segir í greinargerðinni.

Eftir umræður og fundarhlé var tillagan samþykkt samhljóða og því hnýtt aftan við hana að bæjarráð muni skipa í starfshópinn og ákveða fjölda fulltrúa í hópnum.

Fyrri greinIngibjörg Erla fékk afrekskvennastyrk
Næsta greinHvetur samningsaðila til að ræða saman