Stofna danslistarskólann Artemis

Vinkonurnar Inga Sjöfn og Guðmunda eru þessa dagana að koma á fót dansskóla á Suðurlandi en þær kynntust í danslistarskóla JSB.

Báðar eiga þær rætur á Suðurlandi, þó meira Inga Sjöfn, sem er fædd og uppalin á Selfossi. Hún er sjúkraþjálfari og starfar sem slík á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Guðmunda hélt áfram í dansinum og er dansari og danskennari að mennt, auk þess að stunda nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.

„Þetta er búið í blunda í okkur í nokkurn tíma. Okkur finnst spennandi að takast á við ný verkefni og höfum hugsjónir í þessum málum. Eins er mikil vöntun á því að dansnám sé í boði á þessu svæði. Dansinn veitir lífsgleði og hefur hann fært okkur svo margt og við viljum dreifa dansgleðinni áfram. Kynni okkar af Danslistarskóla JSB á sínum tíma þegar við stunduðum dansnám þar kemur þar inn í. Sá skóli stendur okkur alltaf nálægt og er að vissu leyti fyrirmynd okkar þar sem þar er að finna marga góða hluti. En við sækjum fyrirmyndir víðar og viljum við búa til dansskóla sem passar inn í samfélagið hér,“ segir Inga Sjöfn.

Þær stöllur segja nýjan dansskóla líflega viðbót í samfélagið.

„Áhuginn fyrir dansi hefur vaxið undanfarin ár hérlendis og finnst okkur að stórt samfélag eins og hér eigi að búa yfir svona dansskóla. Það er án efa margir hér á Suðurlandinu sem vilja læra að dansa,“ segir Guðmunda.

Framtíðarsýn þeirra er að bjóða upp á dans fyrir alla.

„Til að byrja með þarf maður að vera raunsær og byrja á byrjuninni. Nú í vetur munum við bjóða upp á dans fyrir yngstu iðkendurnar upp í 11 ára aldur. Námið er hugsað jafnt fyrir stelpur sem stráka hvort sem þeim hefur dreymt um að dansa lengi eða einfaldlega langar að prufa eitthvað nýtt.“

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu