Stöðvaður tvisvar í akstursbanni

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði 27 ökumenn fyrir að aka of hratt í liðinni viku.

Einn var kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis og þrír kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti. Þá var einn kærður fyrir að nota ekki lögboðinn öryggis- og verndarbúnað fyrir barn sem var farþegi í bifreið hans. Sá var að skila barni sínu á leikskóla í uppsveitum Árnessýslu.

Einn ökumaður var í tvígang kærður fyrir að aka þrátt fyrir að vera í akstursbanni vegna fyrri brota. Tveir ökumenn voru stöðvaðir þar sem þeir höfðu áður verið sviptir ökurétti og þrír reyndust með útrunnin ökuréttindi. Af þeim voru tveir atvinnubílstjórar við vinnu sína.

Tveir atvinnubílstjórar voru kærðir fyrir að aka án ökumannskorts í ökurita.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrri greinLífsverk Ámunda Jónssonar snikkara
Næsta greinAlda Rose sýnir á Gallery Stokk