Stöðva landrof með heyrúllum

Rúllunum er raðað í rofskörð í fjörukambinum og undir hann. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Starfsmenn Landgræðslunnar unnu að því í síðustu viku að raða heyrúllum í Víkurfjöru til þess að stöðva rof í fjörunni.

„Við röðum rúllunum í rofskörð í kambinum og undir hann til þess að stöðva rofið. Seinna í sumar munum við sá í sandsvæði og styrkja gróður með áburðargjöf,“ segir Gústav M. Ásbjörnsson, sviðsstjóri hjá Landgræðslunni, í samtali við sunnlenska.is.

Aðgerðin á einnig að draga úr hættu á því að sandur berist inn í Víkurþorp.

„Við viljum styrkja gróður á fjörukambinum. Þá er hugsunin til lengri tíma sú að við getum grætt upp í fjörunni í skjóli sjóvarnargarðanna. Verkefnið er samstarfsverkefni Landgræðslunnar og sveitarfélagsins en Landgræðslan hefur komið að uppgræðslustarfinu þarna í áratugi,“ bætir Gústav við.

Fyrri greinSelfoss-U deildarmeistari í 2. deild
Næsta greinFylltu heilan gám af rusli