Stóð fastur í sandi upp að mitti í nokkrar klukkustundir

Um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar í gærkvöldi eftir að tilkynning barst um veiðimann sem hafði sokkið í sand og fest sig í Sandvatni á Haukadalsheiði í Biskupstungum.

Björgunarsveitir í uppsveitum Árnessýslu voru kallaðar út laust fyrir klukkan tíu en skömmu síðar voru fleiri bjargir kallaðar til, bátaflokkar og straumvatnsbjörgunarmenn annarra sveita í Árnessýslu, sem og þyrla Landhelgisgæslunnar.

Maðurinn var á ferðinni ásamt félaga sínum en honum tókst ekki að losa hann. Mennirnir höfðu samband við Neyðarlínuna í gegnum síma en það tók bjargir nokkra stund að staðsetja manninn. Hann var fastur upp að mitti og orðinn kaldur þegar björgunarsveitarmenn náðu til hans.

Manninum var bjargað um borð í bát og svo færður í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti hann á sjúkrahús í Reykjavík á öðrum tímanum í nótt.

Fyrri greinStrandhreinsun við Eyrarbakka á laugardag
Næsta greinEr stundum svo mikið á undan sjálfri mér