Stöðvuð á stolnum bíl með stolnar númeraplötur

Bíleigandi á Selfossi kom á lögreglustöðina í liðinni viku og sagði að skráningarnúmerum hefði verið stolið af bifreið hans.

Skömmu síðar kom hann aftur með þær upplýsingar að hann hefði séð númerin á svartri BMW bifreið á leið norður yfir Ölfusárbrú. Lögreglumenn hófu þegar leit að bifreiðinni og fundu á Suðurlandsvegi við Kögunarhól.

Kona ók bifreiðinni og var ein á ferð. Við nánari skoðun reyndist hún undir áhrifum fíkniefna og svipt ökurétti. Bifreiðinni hafði verið stolið í Reykjavík.

Konan var handtekinn og vistuð í fangaklefa á meðan rannsókn fór fram. Hún var látin laus að lokinni yfirheyrslu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Þar segir einnig frá karlmanni sem var handtekinn á Nesjavöllum í síðustu viku, grunaður um nytjastuld, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og að hafa ætlað að koma sök á annan mann. Hann var látinn laus að lokinni yfirheyrslu.

Fyrri greinTeitur með tíu mörk í bikarsigri
Næsta greinNafn stúlkunnar sem lést