Stöður Guðmundar og Sigurðar lagðar niður

Samkvæmt nýju skipuriti Árborgar verða stöður framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs og verkefnisstjóra fræðslumála lagðar niður.

Guðmundur Elíasson er framkvæmdastjóri framkvæmda- og veitusviðsins en Sigurður Bjarnason verkefnisstjóri fræðslumála.

Breytingin, sem taka mun gildi 1. janúar nk., var rædd á bæjarstjórnarfundi í gær. Við breytingar á skipuriti Árborgar verða fjögur svið í bæjarkerfinu, fjármálasvið, sem er stoðsvið, og þrjú fagsvið; fræðslusvið, félagsmálasvið og tækni- og veitusvið.

Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, er verið er að fækka stjórnunarstöðum og ná þannig fram hagræðingu. „Einnig verða skipulags- og byggingarmálin færð undir tækni- og veitusvið. Stjórnendur þessara sviða verða fjármálastjóri, félagsmálastjóri, fræðslustjóri og tækni- og veitustjóri,“ sagði Ásta í samtali við sunnlenska.is.

Á bæjarstjórnarfundinum í gær mótmælti minnihlutinn og sagði að fyrirhugaðar skipulagsbreytingar hefðu ekki fengið faglega umfjöllun hjá nefndum í bæjarkerfinu áður en bæjarstjórn fjallaði um þær með formlegum hætti.

Eyþór Arnalds, oddviti D-listans, svaraði því til að skipuritsbreytingarnar væru á ábyrgð bæjarstjórnar. Skipuritsbreytingin myndi eyða óvissu meðal starfsfólks og festa í sessi skilvirkara og hagkvæmara skipurit.

Fyrri greinBenedikt þjálfar U20
Næsta greinUnnið í árfarveginum