Stöðugildum fækkar á HSu

Stöðugildum við Heilbrigðisstofnun Suðurlands mun fækka um tæplega 20 á þessu ári. Í örfáum tilfellum hefur verið um uppsagnir að ræða.

Fjárveiting til stofnunarinnar í fjárlögum 2011 var lækkuð um 113 milljónir króna. Heildarlækkun fjárveitinga til stofnunarinnar árin 2009 – 2011 nemur samtals um 21%.

Við gerð rekstraráætlunar stofnunarinnar var haft að leiðarljósi hlutverk hennar skv. lögum um heilbrigðisþjónustu og útfærsla á því hlutverki í fjárlögum 2011. Áætlunin mótast af því, að sem minnst skerðing verði á þjónustu stofnunarinnar og hægt verði að veita nauðsynlegustu bráðaþjónustu. Ennfremur að reynt verði koma í veg fyrir uppsagnir starfsfólks svo sem frekast er kostur.

„Til viðbótar við mikla útgjaldalækkun síðustu tveggja ára er ekki hægt að komast hjá, að útgjaldalækkun
þessa árs leiði til breytinga á þjónustu og uppsagna starfsfólks,“ segir í tilkynningu um starfsemi HSu 2011.

Fækkun stöðugildanna kemur fram í því að ekki hefur verið endurráðið í ákveðin stöðugildi, sem hafa losnað, starfshlutföll nokkurra starfsmanna hafa verið lækkuð og í örfáum tilfellum hefur verið um uppsagnir að ræða.

Auk þessara breytinga gerðar ákveðnar breytingar á stjórnskipulagi stofnunarinnar í þeim tilgangi að boðleiðir verði einfaldari og stjórnun skilvirkari.

Fyrri greinVarað við stormi síðdegis
Næsta greinTekjuaukning á síðasta ári