Stöðvaði ekki við gangbraut og fékk sekt

Lögreglan á Selfossi sektaði ökumann í síðustu viku fyrir að hleypa gangandi vegfaranda ekki yfir gangbraut.

Maðurinn var stöðvaður fyrir að nota ekki viðeigandi auka baksýnisspegla við drátt á kerru sem var það breið að hún skyggði á útsýn aftur fyrir bílinn.

Að auki stöðvaði sami ökumaður ekki við gangbraut til að hleypa gangandi vegfaranda, sem þar beið, yfir götuna og fékk viðeigandi sekt fyrir það.

Sé forgangur gangandi vegfarenda á gangbraut ekki virtur þurfa ökumenn að greiða 10.000 króna sekt og fá tvo punkta í ökuferilsskrá.