Stöðug uppbygging í Hestheimum

Stöðug uppbygging er hjá ferðaþjónustunni í Hestheimum í Ásahreppi en þar hefur gestafjöldinn aukist með ári hverju. Nú er verið að vinna við byggingu tveggja nýrra smáhýsa í Hestheimum.

Stefnt er að því að húsin verði tilbúin þann 1. júní á næsta ári og eru þau nú þegar fullbókuð á meðan á Landsmóti hestamanna stendur, en það fer fram á Hellu 30. júní til 6. júlí á næsta ári.

Með nýju húsunum geta Hestheimar tekið á móti fjörutíu manns í uppbúin rúm og tuttugu til viðbótar í svefnpokagistingu.

Lea Helga Ólafsdóttir, sem rekur Hestheima ásamt manni sínum, Marteini Hjaltested segir að næsta ár verði einnig metár í hestaferðum hjá fyrirtækinu.

„Já, það er sko engin lognmolla hér í Hestheimunum fögru því við munum bjóða upp á hvorki fleiri né færri en níu langar hestaferðir næsta sumar. Auk þess að bjóða upp á gistingu og veitingar þá erum við með margskonar hestaferðir, hestaleigu, hestasölu, hvataferðir og reiðnámskeið fyrir börn, svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Lea Helga í samtali við sunnlenska.is.

Allar upplýsingar um Hestheima má finna á heimasíðu ferðaþjónustunnar en hún er á fimm tungumálum, þar á meðal finnsku. „Það er ekki algengt hjá ferðaþjónustuaðilum og hrossaræktarbýlum hér á landi að gefa upplýsingar á svo mörgum tungumálum en þetta er tilkomið vegna mikils áhuga Þjóðverja, Svisslendinga, Svía, Breta og Finna á íslenska hestinum og íslenskri náttúru,“ sagði Lea Helga að lokum.

Fyrri greinHjarta-stuð-tónleikar
Næsta greinSvikahrappur kærður fyrir miðasölusvik