Stjórnunar- og verndaráætlun Kirkjugólfs staðfest

Kirkjugólf. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra staðfesti í gær stjórnunar- og verndaráætlun náttúruvættisins Kirkjugólfs.

„Í stjórnunar- og verndaráætluninni eru kynntar leiðir til að tryggja að markmið friðlýsingarinnar nái fram að ganga. Mikilvægt er að varðveita stuðlaberg náttúruvættisins Kirkjugólfs og þá sérstöku ásýnd sem svæðið hefur. Einnig þarf þó að tryggja gott aðgengi að svæðinu, svo að sem flestir fái notið,“ segir Guðlaugur Þór.

Kirkjugólf á Kirkjubæjarklaustri var friðlýst sem náttúruvætti árið 1987. Það er lág jökul- og brimsorfin stuðlabergsklöpp þar sem endar lóðréttra stuðlabergssúlna ná upp úr jörðu og mynda um 80 fermetra slétt gólf.

Kirkjugólf hefur jarðfræði- og sögulegt verndargildi, sem og fræðslugildi og var við gerð áætlunarinnar bætt við reglu varðandi kvikmyndatöku og ljósmyndun, svo og um næturgistingu sem er óheimil innan verndarsvæðisins. Til að viðhalda verndargildi Kirkjugólfs skal þess enn fremur gætt að framkvæmdir og ágangur rýri ekki gildi svæðisins. Þá hefur almenningi verið tryggður aðgangur að Kirkjugólfinu með göngustíg sem lagður var frá bílastæði við Geirlandsveg, en einnig er unnt að nýta sér gönguleiðir frá þorpinu.

Fyrri greinSelfoss missti Fjölni uppfyrir sig
Næsta greinHellisheiði og Þrengslum lokað