Stjörnublikk hefur náð samkomulagi um kaup á glerverksmiðjunni Samverk á Hellu úr þrotabúi Kamba. Viðskiptin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Viðskiptablaðið greinir frá þessu og Finnbogi Geirsson, forstjóri og eigandi Stjörnublikks, segir í samtali við blaðið að með kaupunum vilji félagið koma starfsemi glerverksmiðjunnar á Hellu aftur í gang. Hann gerir ráð fyrir að þar verið störf fyrir um 25 manns.
„Ég er fæddur og uppalinn Rangæingur og lít því á þetta sem samfélagsskyldu hjá mér að kaupa Samverk og koma starfseminni á Hellu af stað,“ segir Finnbogi.
Kambar byggingavörur sóttu um gjaldþrotaskipti þann 2. apríl síðastliðinn og sagði samhliða upp ríflega sextíu starfsmönnum félagsins. Félagið starfrækti meðal annars glerverksmiðju á Hellu og gluggaframleiðslu í Þorlákshöfn.